Heilabrot er nýtt endurhæfingarúrræði fyrir fólk með heilaskaða
Hafa sambandVið sérhæfum okkur í heilaskaðaendurhæfingu. Stór hluti þeirra sem hljóta heilaskaða glíma ekki einungis við líkamlega skerðingu heldur einnig við hugræna skerðingu eins og minnisvandamál, skerta einbeitingu, innsæisleysi og dómgreindarleysi. Þessari skerðingu getur fylgt hegðunarvandi. Þó svo að þessi fötlun sjáist ekki endilega utan á fólki þá getur hún haft alvarlegar afleiðingar, meðal annars valdið því að fólk getur ekki unnið eða verið í námi, fjölskyldu- og vinasambönd slitna og fólk einangrast félagslega. Eins og gefur að skilja, eru lífsgæði þessara einstaklinga verulega skert. Lögð er áherslu á að gera notendum þjónustunnar kleift að taka eins og kostur er þátt í sínu fyrra lífi og um leið skipuleggja nýtt líf í friði og með reisn og virðingu.
Að starfinu koma meðal annarra þau Smári Pálsson, sérfræðingur í klínískri taugasálfræði og Ólöf H. Bjarnadóttir tauga- og endurhæfingarlæknir. Þau hafa bæði áratugareynslu af endurhæfingu eftir heilaskaða. Dr. Andy Tyerman, klínískur taugasálfræðingur og leiðandi ráðgjafi í heilaskaðaendurhæfingu í Bretlandi starfar með Heilabrotum að uppbyggingu þjónustunnar hér á landi.
Fréttir
Allar fréttirHvað er heilaskaðaendurhæfing?
Heilaskaðaendurhæfing hvílir á svokölluðum sveiganleika heilans (neuroplasticity). Í heilanum eru taugafrumur sem tengjast og mynda taugavefi. Sveigjanleiki heilans byggist á hæfni hans til að mynda ný tengsl á milli taugafrumna. Slík tengsl - sem myndast sérstaklega á þroskaskeiðum bernskunnar - myndast í raun og verða til alla ævi þegar að fólk lærir eitthvað nýtt.
Skaði á taugavef í heilanum getur til dæmis valdið því að færnin að geta gengið tapast. Sveigjanleiki heilans gerir það að verkum að nýr taugavefur getur myndast ef einstaklingur með slíkan skaða er látinn ganga með aðstoð hjálpartækja. Fótahreyfingar verða til þess að taugaboð eru send til skemmda svæðis heilans, þar sem virkni er skert en boðin berast til nærliggjandi taugavefja, sem eru óskaddaðir. Ný tengsl myndast þannig á milli taugafrumna. Með áframhaldandi stöðugri gönguþjálfun í langan tíma stækkar nýja tauganetið og eftir ákveðinn tíma þarf einstaklingurinn ekki sérstakan stuðning eða beita allri sinni athygli til þess ganga.
Skaði á taugavef annars staðar í heilanum til dæmis framheila getur valdið því að annars konar færni tapast. Þetta getur til dæmis verið geta til að stjórna tilfinningum eins og reiði, hæfileikinn til að setja sig í spor annarra, hæfni til að hugsa fram í tímann og skipuleggja gjörðir sínar. Slík færni er auðvitað grundvöllur hegðunar sem er félagslega viðeigandi fyrir fólk sem hefur náð fullorðinsaldri. En í stað þess að efla hreyfingu þarf að þjálfa æskilega hegðun með því að þjálfa viðkomandi í að hegða sér á viðeigandi hátt. Stöðug þjálfun í viðeigandi hegðun í langan tíma býr hægt og rólega til nýja taugavefi. Með þjálfuninni verður æskileg hegðun að vana og einstaklingurinn þarf ekki að hafa fyrir henni. Eins og gefur að skilja krefst heilaskaðaendurhæfing þess að þjálfun einstaklingsins sé stöðug yfir langan tíma. Nýjir taugavefir myndast einungis við mikla og langvarandi þjálfun.