Brimborg styrkir Heilabrot um 6 milljónir króna

30. desember 2022

Brimborg hefur veitt samfélagsstyrk upp á sex milljónir króna til nýstofnaðrar sjálfseignarstofnunar, Heilabrota endurhæfingar, sem sérhæfir sig í endurhæfingarmeðferð fyrir einstaklinga með heilaskaða í þeim tilgangi að bæta lífsgæði þeirra. Stofnendur Heilabrota eru Fanney Þórsdóttir, Emil Harðarson, Þór Sigurbjörnsson og Þuríður Björnsdóttir en þau eru aðstandendur ungs manns með heilaskaða. Smári Pálsson, sérfræðingur í klínískri taugasálfræði og Ólöf H. Bjarnadóttir, tauga- og endurhæfingarlæknir, koma einnig að starfinu en bæði hafa þau áratugareynslu af endurhæfingu eftir heilaskaða. Dr. Andy Tyerman, klínískur taugasálfræðingur og leiðandi ráðgjafi í heilaskaðaendurhæfingu í Bretlandi, starfar einnig með Heilabrotum að uppbyggingu þjónustunnar hér á landi. Samstarf verður einnig við stjórnendur og sérfræðinga við Center for Hjerneskade í Danmörku.

Stofnendur Heilabrota ásamt mannauðsstjóra Brimborgar, við styttu Leifs Eiríkssonar

Stofnendur Heilabrota þau Fanney Þórsdóttir og sonur hennar Emil Harðarson ásamt Margréti Rut Jóhannsdóttur, mannauðsstjóra Brimborgar, við styttu Leifs Eiríkssonar þar sem sonur Fanneyjar og bróðir Emils fékk alvarlegan höfuðáverka. Slysið varð kveikjan að stofnun Heilabrota, sem er nýtt úrræði fyrir fólk með heilaskaða.

„Þetta byrjaði með því að sonur minn, bróðir Emils, lenti í slysi og hlaut alvarlegan heilaskaða. Hann er ennfremur í þeim hópi sem fær nánast enga endurhæfingu hérlendis. Hann er m.a. með framheilaskaða sem veldur því að hann hefur skerta dómgreind en þjónusta Heilabrota felst m.a. í því að kenna fólki með heilaskaða dómgreind upp á nýtt,“ segir Fanney Þórsdóttir.

Þörf fyrir sérhæfða endurhæfingu eftir heilaskaða er mikil þar sem stór hluti þeirra sem hljóta heilaskaða glíma ekki einungis við líkamlega skerðingu heldur einnig við hugræna skerðingu eins og minnisvandamál, skerta einbeitingu, innsæisleysi og dómgreindarleysi. Þessari skerðingu getur fylgt hegðunarvandi. Þó svo að þessi fötlun sjáist ekki endilega utan á fólki þá getur hún haft alvarlegar afleiðingar, m.a. valdið því að fólk getur ekki unnið eða verið í námi, fjölskyldu- og vinasambönd slitna og fólk einangrast félagslega. Eins og gefur að skilja eru lífsgæði þessara einstaklinga verulega skert. Hefðbundin úrræði hér heima ráða ekki við fólk sem glímir við þennan vanda og þá er ekkert í boði. Sumir lenda því í rauninni á götunni og jafnvel í fangelsum, en þetta er m.a. ástæðan fyrir því að Fanney og Emil fara af stað með starfsemina að erlendri fyrirmynd.

Hvað er heilaskaðaendurhæfing?

Heilaskaðaendurhæfing hvílir á svokölluðum sveigjanleika heilans (neuroplasticity). Í heilanum eru taugafrumur sem tengjast og mynda taugavefi. Sveigjanleiki heilans byggist á hæfni hans til að mynda ný tengsl á milli taugafrumna. Slík tengsl - sem myndast sérstaklega á þroskaskeiðum bernskunnar - myndast í raun og verða til alla ævi þegar fólk lærir eitthvað nýtt.

Skaði á taugavef í heilanum getur til dæmis valdið því að færni til að ganga tapast. Sveigjanleiki heilans gerir það að verkum að nýr taugavefur getur myndast ef einstaklingur með slíkan skaða er þvingaður til að ganga með aðstoð hjálpartækja. Fótahreyfingar verða til þess að taugaboð eru send til skemmda svæðis heilans, þar sem virkni er skert, en boðin berast til nærliggjandi taugavefja, sem eru óskaddaðir. Ný tengsl myndast þannig á milli taugafrumna. Með áframhaldandi stöðugri gönguþjálfun í langan tíma stækkar nýja tauganetið og eftir ákveðinn tíma þarf einstaklingurinn ekki sérstakan stuðning eða að beita allri sinni athygli til þess ganga. Skaði á taugavef annars staðar í heilanum, til dæmis framheila, getur valdið því að annars konar færni tapast. Þetta getur mögulega verið geta til að stjórna tilfinningum eins og reiði, hæfileikinn til að setja sig í spor annarra, hæfni til að hugsa fram í tímann og skipuleggja gjörðir sínar. Slík færni er auðvitað grundvöllur hegðunar sem er félagslega viðeigandi fyrir fólk sem hefur náð fullorðinsaldri. En í stað þess að efla hreyfingu þarf að þjálfa æskilega hegðun með því að þjálfa viðkomandi í að hegða sér á viðeigandi hátt. Stöðug þjálfun í viðeigandi hegðun í langan tíma býr hægt og rólega til nýja taugavefi. Með þjálfuninni verður æskileg hegðun að vana og einstaklingurinn þarf ekki að hafa fyrir henni. Eins og gefur að skilja krefst heilaskaðaendurhæfing þess að þjálfun einstaklingsins sé stöðug yfir langan tíma. Nýir taugavefir myndast einungis við mikla og langvarandi þjálfun.

Hægt að komast aftur á vinnumarkað á ný, með endurhæfingu

„Við höfum skoðað stofnanir sem sérhæfa sig í endurhæfingu eftir heilaskaða í Kanada og Danmörku og erum að fara til Bretlands til að kynna okkur heilaskaðaendurhæfingu þar. Við ætlum að þjónusta mjög breiðan hóp fólks með heilaskaða, sem þarf að glíma við breytilegar áskoranir yfir langan tíma,“ segir Fanney. Endurhæfingarþarfir einstaklinga með heilaskaða breytast með tímanum. Heilabrot stefna á að þjónustan nái yfir hópinn frá því að skaðinn verður og þangað til fólk er tilbúið til að fara út í lífið og lifa sjálfstæðu lífi. Verkefnið er verulegt því talið er að um tvö þúsund manns hljóti svokallaðan ákominn heilaskaða á ári á Íslandi, misalvarlegan þó, en í þessum hópi er fólk sem verður fyrir slysum jafnt sem fólk sem fær heilablóðfall. Hjá flestum lagast færnin mjög hratt en talið er að 10% hljóti alvarlegan skaða sem þarf að meðhöndla með langtíma meðferð. „Erlendis eru tölurnar mjög jákvæðar fyrir bata, í Danmörku er t.d. í boði stíf tveggja mánaða meðferð fyrir fólk sem er langt komið í sínum bata en þessi endurhæfing, sem er allan daginn og með mikilli eftirfylgni, gefur þann árangur að átta af hverjum tíu verða fær um að fara aftur á almennan vinnumarkað,” segir Emil. Árangur heilaskaðaendurhæfingar í Bretlandi hefur verið sambærilegur og í skýrslu sem unnin var af sérfræðingum á vegum breska þingsins þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að heilaskaðaendurhæfing væri ein arðbærasta meðferð bresks heilbrigðiskerfis. Það er dýrt fyrir íslenskt samfélag þegar fólk með heilaskaða fær ekki viðeigandi endurhæfingarmeðferð. Heilabrot hyggjast því bjóða upp á meðferð, sem er sambærileg við þá meðferð sem boðið er upp á erlendis, þ.e. heildstæða langtíma meðferð sem nýtir viðgerðarhæfni heilans.

Styrkur Brimborgar er veittur með hliðsjón af einu af heimsmarkmiðum Brimborgar nr. 3. sem fjallar um heilsu og vellíðan en einnig á grunni slagorðs Brimborgar, öruggur staður til að vera á.